Skilmálar farsímaþjónustu 101 Sambandsins

I. Almennt

1. Eftirfarandi skilmálar gilda fyrir alla farsímaþjónustu sem Sambandið veitir (farsímaþjónustan eða þjónustan) nema ef sérákvæði í sérstökum skilmálum eða samningum mæli á annan veg. Sá sem óskar eftir og/eða nýtir farsímaþjónustu Sambandsins (áskrifandi) skuldbindur sig við undirritun eða staðfestingu samnings um farsímaþjónustu til að hlíta þeim kjörum og skilmálum sem Sambandið setur um notkun þjónustunnar. Sambandið áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum þessum, verðskrá og þjónustunni. Slíkar breytingar eru kynntar á vefsíðunni www.sambandid.is með a.m.k. mánaðar fyrirvara áður en þær taka gildi.

2. Við undirritun samnings um farsímaþjónustu fær áskrifandi úthlutað símanúmeri nema ef um númeraflutning er að ræða og heldur þá áskrifandi áður úthlutuðu númeri. Til þess getur komið að Sambandið þurfi nauðsynlega að breyta símanúmeri áskrifanda en mun þá leitast við að sem minnst óþægindi verði vegna þess.

3. Vilji áskrifandi framselja samning sinn við Sambandið til þriðja aðila skal hann sækja um það eða staðfesta slíka beiðni með skriflegum hætti. Áskrifanda ber að greiða öll gjöld vegna notkunar á þjónustu til þess dags sem slíkt framsal fer fram. Sambandið getur framselt réttindi og skyldur gagnvart áskrifanda til þriðja aðila sem getur veitt sams konar farsímaþjónustu.

4. Sambandið ber ekki ábyrgð á því að fjarskiptasamband rofni um stund. Sambandið mun þó ávallt leitast við að koma á fjarskiptasambandi að nýju sem fyrst og viðhalda gæðum þjónustunnar. Verði verulegur óþarfa dráttur af hálfu Sambandsins á viðgerð getur áskrifandi krafist endurnýjunar gildistíma áfyllingar í hlutfalli við þann tíma sem samband er rofið. Sambandið ábyrgist ekki tjón sem rekja má til sambandsleysis, rofs á farsímaþjónustu eða annarra truflana sem kunna verða á rekstri farsímanets, hvort sem slíkt má rekja til línubilana, bilana í stöðvum eða annarra ástæðna.

5. Ef í ljós kemur að notkun áskrifanda hefur verulega slæm áhrif á virkni fjarskiptakerfis eða felur í sér misnotkun á búnaði og/eða þjónustu Sambandsins eða þjónustuaðila getur félagið neyðst til að synja áskrifanda um farsímaþjónustu um stundarsakir eða til frambúðar. Hið sama á við ef áskrifandi veldur, af ásettu ráði eða með vítaverðu gáleysi, skemmdum á farsímaneti og/eða búnaði sem Sambandið nýtir. Hið sama á ennfremur við ef veittar eru rangar upplýsingar sem eru til þess fallnar að hafa áhrif á gerð og gildi samnings milli áskrifanda og Sambandsins. Ef synjun á farsímaþjónustu um stundarsakir er á ábyrgð áskrifanda greiðir hann engu að síður mánaðargjald til Sambandsins. Skylda þessi fellur niður ef annar hvor aðili segir þjónustusamningum upp.

6. Sambandið áskilur sér rétt til að mæla heildarnotkun viðskiptavinar m.t.t. mínútna, SMS og gagnamagns. Sambandið mun leitast við að vara áskrifanda við ef notkun hans breytist stórfellt á stuttum tíma án viðhlítandi skýringa þannig að grunsemdir vakni um misnotkun þriðja aðila. Fari notkun verulega fram úr hefðbundinni notkun einstaklings á ákveðnu tímabili, t.d. dagsnotkun áskrifanda og líkur eru á að um misnotkun sé að ræða, áskilur Sambandið sér rétt til að skoða þá fjarskiptanotkun og grípa til viðeigandi ráðstafana. Misnotkun getur m.a. falist í því að farsímaþjónusta sé nýtt til tekjuöflunar fyrir þriðja aðila (sviksamleg háttsemi), þ.e. með framköllun símtala eða skilaboða með sjálfvirkum hætti eða með aðstoð tölvu og/eða öðrum rafrænum búnaði. Ráðstafanir Sambandsins til að bregðast við misnotkun kunna að felast í tafarlausri lokun farsímaþjónustu áskrifanda.

7. Sambandið mun safna saman og vinna úr persónuupplýsingum í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en nánari ákvæði um meðhöndlun persónuupplýsinga er að finna í persónuverndarstefnu Sambandsins, sem telst óaðskiljanlegur hluti skilmála þessara.

8. Sambandið kann að geyma afrit af samskiptum milli þess og áskrifanda, þ.m.t. tölvupósta, skilaboð og afrit símtala til að geta sannreynt efni þeirra rísi upp ágreiningur milli aðila. Öll geymsla samtala er í samræmi við ákvæði laga og reglna. Skoðun og afhending samtala er aðeins heimil ákveðnum starfsmönnum Sambandsins og lögbærum aðilum, s.s. lögreglu eða eftirlitsstofnunum í samræmi við fyrirmæli laga.

9. Sé áskrifandi á þjónustuleið með inniföldu Reiki í Evrópu áskilur Sambandið sér rétt til að fylgjast með notkun áskrifanda m.t.t. gagnamagnsnotkunar og grípa til viðeigandi ráðstafana, t.d. viðbótargjaldtöku samkvæmt ákvæðum Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 531/2012 um reiki á almennum farsímanetum með síðari breytingum sé notkun hans óhæfileg og ósanngjörn. Dæmi um slíka notkun er notkun umfram tímabundin ferðalög viðskiptavina, t.d. ef viðskiptavinur hefur heimilisfesti á Íslandi en notar reikiþjónustu að lágmarki fjóra mánuði ósleitt.

10. Verðskrá Sambandsins yfir notkun erlendis innan EES svæðisins tekur mið af reglugerð um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan Evrópska efnahagssvæðisins nr. 1174/2012, með síðari breytingum. Sambandið áskilur sér rétt til þess að grípa til takmarkana á inniföldu gagnamagni og viðbótargjaldtöku innan EES-svæðisins í samræmi við ákvæðið um sanngjarna notkun (e. Fair usage policy) í fyrrnefndri reglugerð. Sambandið gerir ráð fyrir viðskiptavinir séu með heimilisfesti á Íslandi og ferðist til annarra landa í tímabundnum ferðalögum (e. periodic travel). Sé notkun farsímaþjónustu meiri erlendis heldur en heima fyrir í lágmarki fjóra mánuði í röð áskilur Sambandið sér rétt til þess að grípa til viðbótargjaldtöku innan EES-svæðisins í samræmi við ákvæðið um sanngjarna notkun (e. fair usage policy) í fyrrnefndri reglugerð. Sambandið áskilur sér rétt til þess að loka á SIM-kort komist upp um ósamþykkta endursölu á númerum erlendis.

II. Greiðsluskilmálar

1. Gjald fyrir fjarskiptaþjónustu er skv. gjaldskrám sem Sambandið gefur út á hverjum tíma og eru aðgengilegar í appi Sambandsins og á vefsíðunni www.sambandid.is. Allar breytingar á gjaldskrám sem fela í sér umtalsverðar hækkanir umfram verðlagsþróun mun Sambandið tilkynna áskrifendum með minnst eins mánaðar fyrirvara, í appi Sambandsins eða á vefsíðunni www.sambandid.is og er áskrifendum heimilt að segja upp þjónustunni innan þess tíma.

2. Hafi áskrifandi ánafnað og flutt gagnamagn yfir til annars aðila, er ekki unnt að nýta slíkt gagnamagn utan Íslands.

3. Áskrifandi ber fulla ábyrgð á greiðslum til Sambandsins vegna notkunar sem á sér stað á þjónustu eða búnaði, óháð því hvort áskrifandi hafi heimilað notkunina eða ekki. Ef áskrifandi glatar farsíma eða öðrum fjarskiptabúnaði sem nýtir þjónustu Sambandsins ber honum að tilkynna Sambandinu um það tafarlaust. Áskrifandi er ábyrgur fyrir allri notkun búnaðarins og þjónustu honum tengdum, þar til slík tilkynning hefur borist Sambandinu og gefist hefur tími til að bregðast við henni.

4. Áskrifendum ber að greiða öll þjónustugjöld fyrirfram en greiðsla fer fram með greiðslukorti. Takist greiðsla ekki af einhverjum ástæðum mun þjónustan verða óaðgengileg áskrifanda.

III. Annað

1. Brot á skilmálum og reglum getur valdið tafarlausri lokun á þjónustu.

2. Áskrifandi veitir Sambandinu með undirskrift eða staðfestingu á samningi um fjarskiptaþjónustu umboð til að segja upp fjarskiptaþjónustu hjá öðrum þjónustuveitum.

3. Sá lögaðili sem nefndur er Sambandið í skilmálum þessum er Vodafone / Sýn hf. Með samþykki eða staðfestingu þessara skilmála samþykkir áskrifandi jafnframt skilmála Vodafone fyrir fjarskiptaþjónustu eins og þeir eru hverju sinni, en skilmálar þeir eru aðgengilegir á vefsíðunni www.vodafone.is.

Skilmálar þessir taka gildi frá og með 23.8.2019.